1970 | Erlendur Valdimarsson

Það hafa fáir jafn fjölhæfir frjálsíþróttamenn komið fram á sjónarsvið í seinni tíð og Erlendur Valdimarsson. Hann náði góðum árangri bæði í hlaupum og stökkum og árið sem hann varð íþróttamaður ársins náði hann framúrskarandi árangri bæði í kringlukasti og hástökki.

Erlendur fæddist 1947 og ólst upp á Skeiðum. Þar kviknaði áhuginn á íþróttum og spratt hann fyrst og fremst af því að þær voru helsta afþreyingin fyrir unga krakka. Lítið var reyndar um félagsskap yfir vetrartímann en á sumrin komu fleiri strákar í sveitina. Þá var hafist handa við að búa til gryfju og hún svo notuð til að stökkva hástökk, langstökk og stangarstökk, en þar var hrífuskaft meðal annars notað sem stöng. Einnig voru prófaðar kastgreinar, meðal annars kúluvarp, og þá var bara leitað að næsta hnullungi og honum svo kastað eins og menn héldu að kúluvarparar gerðu.

Erlendur fluttist til Reykjavíkur 12 ára gamall og hóf þá að æfa frjálsar íþróttir með KR en skipti svo fljótlega yfir í ÍR. Þar fékk Erlendur smám saman bakteríuna og æfði nánast allar greinar sem hægt var að æfa. Hann stökk m.a. 1,79 m í hástökki og kastaði 17,24 m í kúluvarpi (sveinamet). 1963 og 1964 var hann varamaður í landsliðinu í hástökki þar sem Jón Þ. Ólafsson og Kjartan Guðjónsson voru aðalmenn. Og 1965 náði hann meðal annars þeim árangri að sigra í öllum stökkgreinum Drengjameistaramótsins í frjálsum íþróttum innanhúss, þ.e. langstökki og þrístökki án atrennu og hástökki með og án atrennu.

En kringlukast varð svo með tímanum aðalgrein Erlendar þó að hann hafi einnig verið liðtækur sleggjukastari og kúluvarpari. Árið 1967 setti hann til að mynda 15 unglingamet í kringlukasti og kúluvarpi. Og árið 1969 tekur hann Íslandsmet bæði í sleggjukasti (54,93 metrar, bætti met Jóns Magnússonar um rúmlega hálfan metra) og kringlukasti (56,25 metrar, bætti met Hallgríms Jónssonar um 20 cm).

Erlendur var valinn íþróttamaður ársins 1970. Það ár kastaði hann kringlunni í fyrsta sinn yfir 60 metra og hélt svo áfram að bæta metið í sleggjukastinu. En ugglaust hefur það einnig haft áhrif að hann stökk 1,90 metra í hástökki. Eða eins og Erlendur sjálfur orðaði það: „Að vera svona hlunkur en geta hoppað.“

En keppnisferli Erlends var langt í frá lokið eftir þessi tímamót og hann var í fremstu röð íslenskra kringlukastara í rúman áratug á eftir. Talað var um hann sem helstu von Íslendinga á Ólympíuleikunum í München 1972 en þar gekk honum ekki vel vegna meiðsla sem hrjáðu hann. Erlendur kastaði 55,38 metra og endaði í 24. sæti. Hann hélt áfram að bæta metið í kringlukasti og árið 1973 var metið komið í 62,08 metra. Þetta afrek gaf flest stig íslenskra frjálsíþróttameta fram að þeim tíma – fleiri stig en heimsmetsjöfnun Vilhjálms Einarssonar í þrístökki 1960. Þetta sama ár varð Erlendur einnig fyrsti Íslendingurinn til að kasta sleggju yfir 60 metra. Og árið 1974 var metið komið upp í 64,32 m, sem þá var árangur á heimsmælikvarða, en þá var Erlendur í 12. sæti á heimslistanum. Næstu ár vann hann fyrst og fremst sigra á mótum hérlendis en þegar á leið áttunda áratuginn fór hann að bæta sig að nýju og tókst meðal annars að ná lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Moskvu 1980 með 60,80 m kasti árið áður. Fyrstu 5 mánuði ársins 1980 dvaldi hann við æfingar og keppni í Kaliforníu en það fjármagnaði hann með bankaláni. Eftir það kastaði hann yfir 60 metra en þrátt fyrir að ná lágmarkinu ákvað hann að fara ekki á Ólympíuleikana þrátt fyrir mikinn þrýsting.

Í lok áttunda áratugarins var Erlendur farinn að fá meiri keppni í kringlukastinu frá Óskari Jakobssyni en Óskar ákvað fyrir Ólympíuleikana að einbeita sér frekar að kúluvarpinu. Erlendur hætti keppni 1984 en hélt áfram afskiptum af frjálsum íþróttum með þjálfun og þjálfaði meðal annars Pétur Guðmundsson kúluvarpara þegar hann var upp á sitt besta.

Árangur Erlends 1970

7. maí: Erlendur kastar 55,82 metra á fimmtudagsmóti FRÍ. Hann heggur þar nærri Íslandsmetinu og telja menn ljóst að 60 metra markið náist á árinu hjá honum.

21. maí: Erlendur kastar kringlu 55,40 metra á vormóti ÍR.

28. maí: Erlendur setur Íslandsmet í kringlukasti, 56,44 metra, á EOP-mótinu á Melavellinum.

11. júní: Erlendur kastar 53,64 metra á fimmtudagsmóti Reykjavíkurfélaganna á Melavellinum.

17. júní: Erlendur kastar 57,24 metra á 17. júní í Laugardalnum, sem er nýtt Íslandsmet.

12. júlí: Erlendur kastar kringlu 53,96 metra á hátíðarmóti FRÍ, sem er hluti af íþróttahátíð ÍSÍ. Kastar 53,62 m í sleggjukasti á sama móti.

26. júlí: Erlendur kastar 52,54 metra á meistaramóti Íslands í frjálsum í þróttum og sigrar. Gerir það einnig í sleggjukasti með 54,14 metra kasti.

7. ágúst: Erlendur setur nýtt Íslandsmet í kringlukasti, 58,26 metrar.

17. ágúst: Erlendur setur nýtt Íslandsmet í sleggjukasti, 57,26 metra.

20. ágúst: Erlendur setur nýtt Íslandsmet í sleggjukasti á móti á Bislett-leikvanginum í Ósló, 58,16 m.

28. ágúst: Erlendur sigrar í kringlukasti á Vorse-leikunum í Noregi, kastar 54,16 m.

1. september: Erlendur setur Íslandsmet í sleggjukasti, kastar 58,62 m. Þetta kemur honum í 18. sæti á afrekaskránni á Norðurlöndunum í greininni.

26. september: Erlendur kastar kringlunni 59,58 metra á kastmóti ÍR. Þetta kast skiparhonum á bekk með fremstu kringlukösturum heims.

24. október: Erlendur nær 60 metra markinu í kringlukasti þegar hann kastar 60,06 m á frjálsíþróttamóti á vegum ÍR.